Eldfjallafræðingar hafa gefið út niðurstöður sem benda til þess að kvikusöfnun eigi sér stað undir Kötlu núna. Mikill brennisteins fnykur hefur fundist við jökulinn upp á síðkastið. Eldfjallið streymir upp um 20 kílótonnum af koltvísýringi á sólarhring en eldfjallafræðingar hafa verið að gera mælingar á því við eldstöðina á sérútbúinni rannsóknarflugvél.
Frá þessu greinir DV þann 13. september 2018.
Evgenia Ilyinskaya, eldfjallafræðingur, segir í samtali við RÚV að það komi á óvart hversu mikill koltvísýringur streymi upp. Þá segir hún að magn koltvísýrings sem streymi upp setji Kötlu í 3. sæti yfir eldfjöll í heiminum sem sé búið að mæla koltvísýringsstreymi úr.
Ólíklegt er að þetta sé aðeins jarðhitakerfi, en svona mikið magn koltvísýrings bendir til að kvika sé að safnast saman í eldstöðinni undir jöklinum. Segir hún niðurstöðurnar benda til þess að það sé eitthvað í gangi þarna niðri.
Ekki sé hægt að segja til um hvort að Katla sé að fara að gjósa, en til þess þurfi frekari mælingar.
Katla gaus síðast fyrir hundrað árum, en hún hefur að jafnaði gosið á 40-80 ára fresti. Óhugnalegar lýsingar eru til ritaðar og teiknaðar af gosum fyrri tíma. Árið 1918 varð 21. gos Kötlu frá landnámi en það hafði mikil áhrif á landið. Mikið myrkur var yfir landinu og búskapur drapst. Fólk þurfti að flýja jökulhlaup og öskufall.
Kötlugos fyrir landnám hafði mikil áhrif á Evrópu. Eftir árið 821 varð mikið kuldatímabil í Evrópu en heilu stórfljótin eins og Rín frusu og fólk komst yfir þau á hestum. Kuldinn hafði mikil áhrif á uppskeru og í kjölfarið fylgdu plágur og hungursneyð í nokkur ár. Því má segja að Katla hafi ráðið milljónum manna bana. Hörmungarnar voru svo miklar að franskur munkur ritaði að nú hljóti Guð að vera reiður.
Nútímavísindi hafa sannað að Guð hafi ekki verið sökudólgurinn, heldur Katla.
Yfirvöld í Evrópu hafa undirbúið sig.