Heimilislausir fá ekki að vera á tjaldsvæðinu í Laugardal í vetur

Seinasta vetur leituðu um það bil 20 heimilislausir einstaklingar skjóls á tjaldsvæðinu í Laugardal. Þetta er hins vegar liðin tíð því komandi vetur verður þeim meinað að vera þar. Þeir hafa því engin önnur úrræði í borginni til að snúa sér að.

Tjaldsvæðið í Laugardal hefur breytt skilmálum sínum og í vetur verða húsbílar, fellihýsi og hjólhýsi bönnuð. Þá verður bara leyft að tjalda þar í eina viku í senn. Því verður tjaldsvæðið bara tilvalið fyrir ferðamenn með tjöld og fáa aðra.

Rekandi tjaldsvæðisins sendi í byrjun ágúst mánaðar bréf til Reykjavíkurborgar þar sem hann sagðist vera opinn fyrir viðræðum hvað varðar samstarf við borgina um leigu þeirra sem vantar búsetuúrræði. Reykjavíkurborg hefur ekki enn leitað formlega eftir samstarfi en einhverjar viðræður hafa þó átt sér stað.

Frú Ragnheiður er vagn sem styður við heimilislausa og fíkla. Vagninn hefur meðal annars dreift tjöldum til heimilislausra. Verkefnastýra vagnsins, Svala Jóhannesdóttir, segir í samtali við Vísi að hún telji að heimilislausir muni leita til ýmissa svæða í borginni verði tjaldsvæðið þeim ekki opið.

Henni dettur í hug að heimilislausir eigi eftir að koma sér fyrir í Öskjuhlíðinni og Elliðaárdalnum eða á nærliggjandi svæðum borgarinnar. Henni finnst það ekki gott því þar skortir salerni og aðgengi að hreinlætisaðstöðu.

Þeir sem leituðu skjóls á tjaldsvæðinu í Laugardal í vetur fengu boð um aðstöðu í Víðinesi en það úrræði þótti ekki henta mörgum og flestir höfnuðu boðinu. Víðisstaðatún verður lokað yfir veturinn en margir hafa leitað skjóls þar og á öðrum tjaldsvæðum. Þegar fréttastofa Vísis kíkti þangað sagðist fólk ekki vita hvert þau myndu leita eftir að Víðisstaðatúni yrði lokað.

Árið 2005 voru um 80 einstaklingar heimilislausir á Íslandi, 2012 voru þeir orðnir 179. Árið 2017 var síðan sú tala komin upp í 349. Á sama tíma er fjöldi landsmanna fremur lítið breyttur.

Margir þeirra einstaklinga sem leituðu skjóls á tjaldsvæðinu í vetur voru ekki óreglumenn, heldur heimilislausir vegna skorts á húsnæði.